Runners
Total collected
Goal
thank you for your support!
Fyrir pabba <3
12. október 2023 er dagur sem mun renna mér seint úr minni.
Dagurinn byrjaði eins og hver annar virkur dagur, fyrir utan það að ég hafði drifið mig í sveitina þar sem ég ætlaði að vinna fjarvinnu og eftir vinnu að hjálpa foreldrum mínum að vinna kjöt af nýslátruðu.
Ég átti óvenju góðan kaffibolla og spjall við pabba um morguninn áður en hann dreif sig út í verkin því til stóð að drífa sig upp í heiði að athuga með eftirlegukindur.
Um kaffileiti drifu pabbi og frændi sig upp í heiði og heyrði ég hljóðið í buggýbílnum fjarlægjast á meðan ég og mamma úrbeinuðum kjöt í kjallaranum.
Það leið ekki á löngu þar til við fengum fregnir af því að líklegast hefði e-ð slys eða óhapp átt sér stað og drifum við mamma okkur upp í heiði.
Aðkoman var lamandi og við stóðum fyrir framan aðstæður sem við vorum mjög hjálparvana en reyndum allt hvað við gátum að láta allt fara á besta veg.
Ég man augnablikið þegar ég sá að björgunarsveitinar Bróðurhönd og Dagrenningu birtast, þakklætið og vonarneistinn sem kveiknaði var ómetanlegur. Þarna voru menn sem voru kunningar og vinir pabba að berjast fyrir lífi hans og gerðu allt hvað þeir gátu. Þetta voru menn sem fengu kallið, hentu öllu frá sér og voru mættir á ótrúlega skömmum tíma. Þetta voru líka menn sem komu og tóku mig, mömmu, frænda og bróður minn í sína arma og gerðu allt hvað þeir gátu til að auðvelda okkur aðstæður.
Tíminn stóð í stað en allt var á fleygiferð í kringum okkur. Ég sá í einu leifturljósi hvað lífið getur verið hverfullt, skrítið og ósanngjarnt og þá er svo mikilvægt að hafa fólk sem getur hent öllu frá sér og stokkið til og hjálpað í aðstæðum sem þessum sem og öðrum. Mikilvægi björgunarsveitanna er óumdeilanlegt en um leið og maður lendir í aðstæðum sem þessum sér maður enn betur mikilvægið.
Því miður lést pabbi þarna upp í heiði en þó við það sem hann elskaði mest, eltast við kindur og á einum af sínum uppáhalds stöðum <3
Hann pabbi minn vildi aldrei skulda neinum neitt eða standa í þakkarskuld við neinn og því langar mig að hlaupa í Reykjavíkurmaraþoninu í minningu hans og láta það sem ég næ að safna renna til björgunarsveitanna sem komu að og hjálpuðu okkur þennan örlagaríka dag.
Ég er þakklát fyrir hverja krónu sem mun safnast í þessi áheit, margt lítið gerir eitt stórt. Einnig vil ég skora á ferðaþjónustufyrirtæki á Suðurlandinu að styrkja málefnið þar sem ég tel það mjög mikilvægt að hægt sé að geta treyst á svo mikilvægan þátt sem björgunarsveitir eru. Tökum höndum saman <3
Með fyrirfram þökk
Berglind Sig.
Björgunarsveitirnar Dagrenning og Bróðurhönd
Björgunarsveitirnar Dagrenning og Bróðurhönd eru staðsettar í Rangarþingi eystra. Öflugur hópur sjálfboðaliða sem aðstoðar þegar þörf er á.
New pledges